Minningarorð

Forsíða / Fréttir
07.06.2011

Minningarorð

           

 

 

 

 

 

 Virðing og þakklæti eru orð sem komu upp í hugann þegar við fengum þær sorgar fréttir að Kristján formaður okkar hafði látist af slysförum á Spáni. Þar hafði hann eignast sælureit fyrir sig og Þóru eiginkonu sína. Við hjá Meistarafélagi byggingamanna á Suðurnesjum fengum Kristján til að vera formann MBS árið 2005. Kristján var menntaður málarameistari enn starfaði þá hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Það var ekki að ástæðulausu  sem við leituðum til hans, orðspor hans og fagleg vinnubrögð sem formaður Lögreglufélagsins var þannig að við sóttumst eftir kröftum hans. Það kom fljótt í ljós að við veðjuðum á réttan mann svo um munaði. Kikki eins og við og vinir hans kölluðum hann lét strax til sín taka. Hann var ekki búinn að vera lengi hjá okkur þegar hann var búinn að fá nunnurnar í Hafnarfirði til að sauma nýjan fána fyrir félagið. Fáninn átti að vera stolt félagsins og geta sýnt félagsmönnum virðingu við jarðarfarir. Kikki talaði af mikilli alúð um nunnurnar í Hafnarfirði og þeirra handverk.

            Heimasíða félagsins var mikið kappsmál hjá honum. Hann var meðvitaður um mikilvægi þess að nýta tæknina og sýnileika. Í þá vinnu fór hann af miklum eldmóð og lagði mikið í þá vinnu enda ber hún hans fagmennsku gott vitni. Kikki tók strax í byrjun af mikilli festu á innan hús málum sem og málefnum varðandi hagsmuni iðnstéttanna. Hann var fulltrúi Meistarafélags byggingamanna á Suðurnesjum í Meistarasambandi byggingamanna, sem eru samtök fagfélaga. Margar ferðir hefur hann skipulagt fyrir okkur, þar á meðal tvær ferðir á Kárahnjúka, stærstu framkvæmd Íslandssögunnar. Þær ferðir gengu snurðulaust fyrir sig og báru vott um gott skipulag.

            Virðing, traust og þakklæti eru orð sem passa vel við vin okkar Kristján. Að eiga góðar minningar um hann hjálpar okkur að komast yfir söknuðinn sem því fylgir að hafa misst hann alltof fljótt.

            Kristján Kristjánsson við þökkum þér fyrir samveruna og frábær störf í okkar þágu megir þú hvíla í friði.

Hugur okkar er hjá aðstandendum Kristjáns og vottum við þeim okkar dýpstu samúð.

 

Fh.
Meistarafélags byggingamanna á Suðurnesjum.

Stjórnin.