Iðnaðarmálagjaldið - loksins er komin niðurstaða.

Forsíða / Fréttir
30.04.2010

Iðnaðarmálagjaldið - loksins er komin niðurstaða.

 

Iðnaðarmálagjaldið er  komið í höfn, til hamingju allir  okkar menn, það er  mikill léttir hjá  okkur sem erum innan raða Meistarasambands byggingamanna (MB), að nú er ekki  lengur hægt að þvinga þá sem eru innan okkar raða,  að greiða  gjald til samtaka, sem við erum ekki einu sinni í .  Það er félagafrelsi í landinu og að það hafi verið látið viðgangast  allar götur fram að þessu, að þvinga okkar menn til að greiða til Samtaka Iðnaðarins háar upphæðir, og það af veltu, þetta hefur verið með miklum  ólíkindum. Okkar samtök hafa mótmælt þessu lengi og höfðað mál, bæði fyrir undirrétti og Hæstarétti, en  sem betur fer eru til mannréttindadómstólar og hefur nú fengist niðurstaða, sem  er á þá lund að ekki sé hægt að þvinga  okkur til að greiða þetta gjald, hvað þá til samtaka sem við erum ekki í.

Formaður  Meistarasambandsins Baldur Þór hefur barist  hart fyrir þessu máli og aldrei hvikað frá skoðun sinni, fyrir það ber að þakka.  KK

 

Sjá grein sem Baldur skrifaði eftir að Hæstiréttur Íslands hafði fellt sinn dóm.

 

Vill Hæstiréttur rassskellingu?

Baldur Þór Baldvinsson fjallar um dóm Hæstaréttar varðandi félagsgjald til Samtaka iðnaðarins: "Það hefur lengi verið skoðun mín, og hún hefur styrkst: Hæstarétti Íslands veitir ekki af naflaskoðun."

 

OFT vekja dómar Hæstaréttar furðu, eru um margt óskiljanlegir, verða þess oft valdandi, eins og dæmin sanna, að Hæstiréttur Íslands er ekki hátt skrifaður. Þessi æðsti dómstóll okkar Íslendinga, þeir dómarar sem hann skipa, ætti að sjálfsögðu að skipa þann sess í hugum okkar að þar væri ekki um að ræða neinn vafa um réttmæti þeirra dóma sem þessir ágætu dómarar fella. En því miður, ef um er að ræða mannréttindi þá virðist allt fara úr böndunum hjá Hæstarétti. Framganga Hæstaréttar í mörgum mannréttindamálum minnir mig um margt á sögur um börn hér fyrr á árum, sem oft fengu rassskellingu hjá foreldrum sínum; Þau væru beinlínis farin að njóta þess, vildu endilega fá rassskell sem oftast.

20. desember sl. kvað Hæstiréttur upp dóm í máli nr. 315/2005. Niðurstaða dómsins bendir ekki til annars en að samlíking dómstólsins við sögusagnirnar um börnin, sem ég gat um hér að framan, eigi aldeilis fullan rétt á sér.

Hæstiréttur Íslands er ekki óvanur því að fá hressilega ofanígjöf frá æðri dómstól vegna brota á mannréttindum og virðist dómstóllinn enganveginn saddur, vill greinilega meira. Svo mun að sjálfsögðu verða því auðvitað fer þetta mál áfram, fyrir Mannréttindadómstól Evrópu

Þetta síðasta afrek Hæstaréttar varðar skyldu allra einstaklinga, félaga og félagasambanda sem stunda tiltekinn rekstur, til að greiða í formi iðnaðarmálagjalds, félagsgjald til Samtaka iðnaðarins (SI). Þessi greiðsla, þessi nauðungarskattur, er algjörlega óháður því hvort þar er um að ræða félagsmenn eða ekki. Þeir aðilar sem standa utan Samtaka iðnaðarins en verða samt, tilneyddir, að greiða þennan skatt eru auk Meistarafélags húsasmiða, Meistarafélag pípulagningamanna, Meistarafélag dúk- og veggfóðrarameistara, Meistarafélag iðnaðarmanna á Suðurnesjum, Bílgreinasambandið, Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði, Samtök verslunar og þjónustu og Félag íslenskra stórkaupmanna. Allir aðilar þessara félaga og félagasambanda eru samkvæmt lögum neyddir til að greiða félagsgjald til samtaka sem þeir ekki vilja tilheyra og það sem meira er, ríkið sér um innheimtuna.

Fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, sagði eitt sinn í blaðaviðtali að ríkið gæti allt eins rukkað félagsgjöld fyrir LÍÚ, Fram eða Val.

Deila