Er eftirlitið nægjanlegt - Hvað er til ráða?
Iðnmeistarar góðir, er ekki nauðsynlegt fyrir okkur að þjappa okkur enn betur saman en áður og nú á landsvísu. Nýtum kreppuna til að taka til og byggja upp framtíðina. Lærum af reynslunni og forðumst þessar sveiflur sem hafa verið hjá okkur og síðast en ekki síst virðum fagréttindin og faglega ábyrgð.
Ég vil birta varnaðarorð sem voru skrifuð í ,, góðærinu " og birtust á síðunni okkar svona til að biðja menn um að skoða núna með jákvæðum hug hvort ekki þurfi að gera eitthvað róttækt til að við sem hópur getum verið með virkt eftirlit á landsvísu og sem víðast verði fagréttindin virt, iðnmeistarar notum aðeins löggilta fagmeistara sem undirverktaka.
Hjá okkur hér í Reykjanesbæ hafa bæjaryfirvöld orðið við okkar óskum og hafa kynnt á fundi okkar í MBS áform sín um að taka í notkun byggingastjóramöppu að hætti Reykjavíkurborgar.
En áður hafði Magnús Sædal byggingafulltrúi Reykjavíkur kynnt þau vinnubrögð sem þeir hafa tekið upp og væntum við mikils af þessu. Um var að ræða heilsdagsnámskeið í salnum okkar, námskeið á vegum Iðunnar
Sjá hér á eftir vangaveltur sem birtust á síðunni okkar í ,, góðærinu " :
Iðnmeistarar góðir eru ekki hættumerki á lofti vegna of lítils eftirlits með byggingavinnu sem og að um sé að ræða marga ófaglærða menn sem stunda þessa vinnu og fá síðan einhverja til að ,, leppa“ þá sem þarna eru víða að undirbjóða góð alvöru fyrirtæki.
Mér hefur verið tjáð að nú þegar er í gangi ójafn leikur manna sem eru að undirbjóða löggilta iðnaðarmenn og er ég þá ekki eingöngu að fjalla um þá landa okkar sem ávallt skjóta upp kollinum og undirbjóða þá sem lærðir eru og starfa samkvæmt þeim reglum um ábyrgð og vönduð vinnubrögð, sem hæfir góðum fyrirtækjum. Hér á ég við óhefta ,, innrás“ vinnuafls frá evrópska efnahagssvæðinu, aðila sem vitað er að margir hverjir eru réttindalausir og eru hér í tugþúsunda tali og eru nú komnir í samkeppni við löggilt byggingafyritæki og sjálfstæða iðnmeistara, en að sögn eru þeir margir m.a. í tvöfaldri vinnu, vinna hjá fyrirtækjum að deginum og síðan í ,,hinni vinnunni“ utan við hinn hefðbundna vinnudag og hafa jafnvel aðra vinnukrafta, óskráða í vinnu, en um þetta hafa menn sem eru að byggja skrafað og eru þeir hissa á að við stöðvum þetta ekki, spurt er hvernig standi á að hægt sé að taka að sér að flísaleggja fermetrann á kr. 1.550 - og það á kvöldin og um helgar.
En það var einmitt dæmið sem einn húsbyggjandinn sagði mér frá og var hissa á að ekkert virtist vera fylgst með þessum starfsmönnum.
Því má spyrja hvað verður um okkar löggiltu meistararéttindi í ljósi samkeppninnar og lítils eftirlits . Við vitum það allir að ekki verður góðærið hér að eilífu.Dögum við uppi eins farmannastéttin eða skipasmiðirnir?
Er það hagur okkar iðnaðarmanna að eftirlit sé ekki meira en raun ber vitni með nýbyggingum og viðgerðum á byggingastað?
Því er ekki á móti mælt að byggingareglugerðin er víða brotin varðandi uppáskriftir iðnmeistara í mörgum sveitarfélögum landsins.
Hvað geta heildarsamtökin gert til að sporna við þessum málum spyrja menn, tel ég að þarna þurfi að taka til hendinni og verja með því iðnréttindin og faglega ábyrgð húseigendum til bóta og að verja þá hagsmuni fagmeistara sem byggingalögin kveða á um.
Erum við virkilega það máttvana, að við getum ekki komið í veg fyrir að hunsuð sé uppáskrift iðnmeistara í löggiltum iðngreinum, þrátt fyrir ákvæði um það í lögum.
Ljóst er að víða er pottur brotinn. Hér á okkar svæði vil ég séstaklega benda á málara og dúklagningameistara, en þrátt fyrir ákvæði í lögunum, er ekki farið eftir því eins og þyrfti .
Stöndum við sjálfir nægilega saman.
Ef fyrirtækin fá undirverktaka til að vinna fyrir sig, án þess að ávallt sé um að ræða útskrifaða fagmenn, eins og ég hef m.a. fengið upplýsingar um, þá er ekki furða þótt að t.d. uppmælingin sé á undanhaldi hér.
Verður röðin næst komin að húsasmiðum og pípulagningameisturum, erum við búnir að gleyma skipasmiðunum, þar sem einmitt undirboð erlendis frá eru að ganga að stéttinni dauðri.
Ég einfaldlega spyr ykkur kæru meistarar, þurfum við ekki að standa þéttar saman og taka á þessu af alvöru.
Væri ekki ráð að versla aðeins við útlærðra iðnaðarmenn sem vilja og ætla að bera ábyrgð á sinni vinnu.
Ef iðnmeistarar standa ekki betur saman en þetta, þá tel ég að mjög erfitt sé fyrir þá að sporna við óheftu flæði ófaglærðs vinnuafls sem kemur inn á markaðinn frá Evrópu og undirbýður þá sem reka sín fyrirtæki eftir viðtekinni almennri fagmennsku, í ljósi þess litla eftirlits á byggingarstað sem á sér stað víða.
Leggjum þunga áherslu á eftirlitið, þeir sem fylgjast með þessu sjá að í þenslu þeirri sem nú ríkir og hefur ríkt, er mikið að og þegar til lengri tíma er litið tel ég að í hugum margra skaðist sú ímynd sem á að vera á g